16.02.2018Til upplýsingar fyrir félagsmenn um meðferð upplýsinga frá MAST
Í tengslum við mjólkureftirlit Auðhumlu óskar félagið eingöngu eftir skýrslum frá MAST er varða mjólkurframleiðslu (fjósaskoðunarvottorð). Þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunum eru nafn bónda, netfang, nafn lögbýlis, heimilisfang, starfsstöð, hver var viðstaddur úttektina, tilefni úttektarinnar, hvenær eftirlitið var framkvæmt, hvenær skýrslu var lokað, tímanotkun MAST við úttekt auk frávika og frests til úrbóta. Tilgangurinn er að mjólkureftirlitið og dýralæknir þess geti aðstoðað mjólkurframleiðendur við að greiða og bæta úr frávikum sem skráð eru í skýrslunum.
Skýrslurnar frá MAST eru sendar til Auðhumlu á sérstakt netfang og hefur dýralæknir mjólkureftirlitsins einn aðgang að skýrslunum. Allar upplýsingar sem þar koma fram er farið með sem trúnaðarmál í samræmi við þagnarskylduákvæði í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998. Áætlað er að geyma nýjustu skýrslur MAST rafrænt á lokuðu svæði, en eldri skýrslum verður eytt samhliða.
Framkvæmdin hefur hingað til verið sú að MAST tilkynnir ekki frávik eða íhlutandi aðgerðir til Auðhumlu fyrr en þau eru gerð opinber. Með hinu nýja verklagi er hægt að efla skilvirkni þegar MAST finnur að matvælaöryggi og/eða dýravelferð í mjólkurframleiðslunni. Við þetta má bæta að MAST tekur frumkvæði Auðhumlu til samvinnu sem leiða á til bættra aðstæðna mjólkurframleiðenda fagnandi.