17.04.2008Engar kýr lengur í Laugardælum
Hver hefði trúað því að engar kýr væru lengur í Laugardælum í Flóahreppi, sem var eitt af stærstu og glæsilegustu kúabúum hér á árum áður. Það er jú staðreynd, allar kýrnar af bænum hafa verið seldar.
„Ástæðan er fyrst og fremst húsakosturinn, fjósið er orðið lélegt og því stóðum við bræður frammi fyrir því hvort við ættum að taka fjósið í gegn og gera það að nútíma fjósi eða bregða búi, við völdum síðari kostinn“, sagði Haraldur Þórarinsson í Laugardælum en hann og bróðir hans, Ólafur Þór, hafa verið með kúabúskapinn á staðnum frá 1987.
Ekki hefur verið ákveðið hvað verður gert við fjósið og húsakostinn í Laugardælum nú þegar kýrnar eru farnar. „Nú leggjumst við bara undir feld og sjáum til, við finnum húsunum örugglega eitthvað gott hlutverk“; bætti Haraldur við. Kaupfélag Árnesinga hóf kúabúskap í Laugardælum 1937 með byggingu fjóssins og var með hann til ársins 1952 eða þegar Búnaðarsamband Suðurlands tók við rekstrinum og stóð í honum til ársins 1987 þegar bræðurnir tóku við honum.
Kúabúskapur hefur verið stundaður í Laugardælum í um 70 ár en nú hefur orðið breyting á, engar kýr eru þar lengur.
Hér er Haraldur bóndi að kveðja síðasta gripinn, Þoku, sem fer í fjósið á Hæli hjá Sigurði Steinþórssyni .
Þegar mest var voru um 100 kýr mjólkandi í Laugardælum en síðustu ár hafa það verið um 30 kýr.