29.04.2008Afköst í pökkun tvöfaldast hjá MS Akureyri
Ný og fullkomin fernupökkunarvél frá Tetra Pac hefur verið tekin í notkun hjá MS Akureyri. Innréttaður var nýr pökkunarsalur í mjólkursamlaginu þar sem vélinni var komið fyrir, sem og pökkunarlínu. Lokaáfangi verkefnisins verður í næsta mánuði þegar sjálfvirkum róbótar verða settir upp en hlutverk þeirra er að raða á vöruvagna sem síðan er keyrt út til verslana.
Að sögn Sigurðar Rúnars Friðjónssonar, samlagsstjóra, er nýja pökkunarvélin helmingi afkastameiri en eldri búnaður samlagsins. Vélin getur pakkað um 6000 lítrum á klukkustund en að jafnaði er pakkað um 20 þúsund lítrum af ferskmjólk á dag í samlaginu. Auk þess rjóma og sýrðum vörum á borð við súrmjólk og jógúrtvörur.
„Þessi vélbúnaður er mikil bylting fyrir okkur og styrkir okkar starfsemi verulega. Jafnhliða höfum við tekið í notkun nýjan vörulager og vöruafgreiðslu þannig að í heild sinni erum við því að endurskipuleggja hér stóra þætti í starfseminni. Þetta skilar okkur hagræðingu í starfseminni en framundan eru frekari framkvæmdir við byggingu á húsi fyrir afgreiðslu á tankbílunum,” segir Sigurður Rúnar.
Þessu til viðbótar er vert að geta þess að smurostaframleiðsla MS var flutt fyrir skömmu til MS Akureyri frá Reykjavík, sem enn eykur við ostaframleiðsluna á Akureyri. Sigurður Rúnar segir að nú komi um 65% af ostum á markaði hér á landi frá Akureyri.
„Okkar markmið er sífellt að sækja fram, þróa okkar starfsemi og styrkja á allan hátt. Þannig mætum við framtíðinni best og auknum innflutningi sem við þurfum að gera ráð fyrir að geta komið til á næstu árum,” segir Sigurður Rúnar Friðjónsson.